"

Neskaupstaður - Norðfjörður

Tjaldsvæðið er á fallegum útsýnisstað við snjóflóðavarnargarðana í Drangagili, ofan við Víðimýri. Á svæðinu eru sturtur, snyrting, rafmagn, leiksvæði og strandblakvöllur. Ganga má upp á varnargarðana og njóta stórkostlegs útsýnis yfir bæinn, fjörðinn og fjöllin.

Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn er í anddyri Sundlaugar Norðfjarðar og er hún opin allt árið. Safnahúsið í Neskaupstað er í fallega uppgerðu húsi við gömlu höfnina í miðbænum. Þar eru þrjú frábær söfn til húsa; Málverkasafn Tryggva Ólafssonar, Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar og Náttúrugripasafnið í Neskaupstað. Hinum megin götunnar er Kaupfélagsbarinn, sem er með glæsilegri veitingastöðum og Nesbær, rótgróið kaffihús og bístró. Sundlaug Norðfjarðar er flott útilaug með fallegri fjallasýn, heitum pottum og tveimur stórum rennibrautum. Önnur þeirra nefnist Dóri rauði og er með lengstu sundrennibrautum landsins. Í næsta nágrenni sundlaugarinnar er síðan Lystigarðurinn í Neskaupstað. Skorrahestar eru í Norðfjarðarsveit, rétt innan við bæinn, með hestaleigu og útreiðar og enn innar rekur Golfklúbbur Norðfjarðar skemmtilegan níu holu golfvöll. Fólkvangur Neskaupstaðar liggur rétt utan við bæinn, í austurhluta Norðfjarðarnípunnar og er leiðin út í Páskahelli á meðal þekktari gönguleiða staðarins. Þrjár stórar sumarhátíðir eru haldnar á Norðfirði. Sjómannadagurinn er þriggja daga hátíð aðra helgina í júní, aðra helgina í júlí fer fram tónlistar- og rokkhátíðin Eistnaflug og um verslunarmannahelgina er haldin fjölskyldu- og útihátíðin Neistaflug ásamt Barðsneshlaupinu. Neskaupstaður er einn af sjö bæjarkjörnum Fjarðabyggðar.


Þjónusta í boði

 • Golfvöllur
 • Leikvöllur
 • Veiðileyfi
 • Salerni
 • Heitt vatn
 • Sturta
 • Gönguleiðir
 • Hestaleiga
 • Veitingahús
 • Barnaleikvöllur
 • Kalt vatn

Lýsing á aðstöðu

Opnunartími

1.júní - 1.september


Verð

Verð 2021 - per nótt

Fullorðnir 1500 kr
Ellilífeyrisþegar 1200kr
Rafmagn 1000 kr.