Náttúruperlan Þakgil er staðsett á Höfðabrekkuafrétti milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands 15 km frá þjóðveginum. Eins og nafn gilsins bendir til er þar mikil veðursæld og stórbrotin náttúra.
Beygt er út af þjóðveginum við Höfðabrekku sem er 5 km austan við Vík. Ekið er sem leið liggur inn á heiðar, eftir vegi sem var þjóðvegur nr. 1 til 1955, þar til komið er að skilti sem bendir inn í Þakgil. Vegurinn inn í Þakgil er fær öllum bílum.
Hafist var handa við uppbyggingu ferðamannaaðstöðunnar í Þakgili vorið 2001 og opnað tjaldsvæði á miðju sumri 2002.
Hluti af veginum inní Þakgil var þjóðvegur 1 til ársins 1955. Þá tók brúnna af yfir Múlakvísl í hlaupi frá Kötlu og vegurinn var færður neðar á Mýrdalssand nokkru ofar en hann er nú. Á leiðinni í Þakgil er Stórihellir sunnan við Lambaskörð, c.a. 6 km frá þjóðveginum, þar voru haldnir dansleikir í gamla daga. Byggð var brú yfir Yllagil 1931- 1933 aflöggð 2002 og sett ræsi í staðin.
Bændur í Mýrdal hafa rekið fé sitt á afréttinn í margar aldir og eru djúpar kindagötur víða á afréttinum sem nýtast að hluta til sem göngustígar. Í Miðfellshelli í Þakgili hafa smalar rist fangamörk sín og ártöl á hellisveggina. Hellirinn var notaður sem gangnamannakofi til ársins 1918. Þá eftir kötlugosið var flutt í Brík, skúta fremst í Þakgili, og verið þar eitt haust. Síðan var hlaðinn kofi í Ausubólshólum vestan við Þakgil. Kofinn var notaður í c.a. 50 ár. Við tóftina eru 3 aflraunasteinar sem nefndir eru amlóði, hálfsterkur og fullsterkur. Núverandi gangnamannakofi er gamalt skólahús flutt frá Deildará í Mýrdal.
Á þessu svæði eru margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi. Tjaldsvæði, snyrting og sturta eru á staðnum. Matsalurinn er náttúrulegur hellir og í honum eru borð og bekkir og bæði kamína og grill.
Tjaldsvæðið er tilvalið hvort sem er fyrir einstaklinga eða hópa.
Opnunartími
1.júní - 30.september
Verð 2023
Verð fyrir fullorðinn: 2.300 kr
Verð fyrir börn: Frítt fyrir 11 ára og yngri
12 – 16 ára: Greiða bara fyrir fyrstu nóttina þótt gist sé í fleiri.
Sturta: Innifalið fyrir tjaldgesti.
Rafmagn: 1.000 kr pr sólarhring
Smáhýsi: 22.000 kr nóttin.