"

Vopnafjörður

Tjaldsvæðið er staðsett á fallegum stað ofarlega í þéttbýlinu norðanverðu. Er á tveimur flötum þar sem útsýnið yfir þéttbýlið, fjörðinn og að myndarlegum fjöllunum handan fjarðarins er hreint magnað. Tjaldsvæðið er fremur smátt enda byggt fyrir tíma hinna stórvöxnu felli- og hjólhýsa. Skammt neðan tjaldsvæðisins er leikvöllur leikskólans og handan Lónabrautar skólalóðin með m. a. sparkvelli.


Þjónusta í boði

  • Golfvöllur
  • Rafmagn
  • Hestaleiga
  • Sundlaug
  • Sturta
  • Gönguleiðir
  • Leikvöllur
  • Veiðileyfi
  • Eldunaraðstaða
  • Eldunaraðstaða

Lýsing á aðstöðu

Tjaldsvæðið býður upp á raftengingu, sem kostar 800 kr. sólarhringurinn. Í aðstöðuhúsi eru 2 snyrtingar, sturta og aðstaða til þvotta utandyra, þ. e. stór vaskur þar sem þvo má bæði hendur og áhöld. Ská á móti tjaldstæðinu í um 100 metra fjarlægð er Íþróttahús Vopnafjarðar. Þar eru bæði snyrtingar og sturtur sem gestir tjaldsvæðisins geta nýtt sér gegn vægu gjaldi. Í Íþróttahúsinu er einnig gufubað, ljósabekkir og aðstaða til líkamsræktar. Efst í þéttbýlinu, við Búðaröxl, er áhaldahús sveitarfélagsins og þar úrgangslosun hjólhýsa að finna.

Nálægð er við alla þjónustu enda þéttbýlið smátt og tjaldsvæðið tiltölulega miðjusett. Í miðbæ kauptúnsins í ca. 500 metra fjarlægð frá tjaldsvæði er upplýsingamiðstöð ferðamála að finna, í Kaupvangi – glæsilegu endurgerðu timburhúsi sem setur mikinn svip á bæinn. Í Kaupvangi er auk þess Múlastofa, sýning um líf og list þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona sem flestum Íslendingum eru að góðu kunnir á einn eða annan hátt. Hver kannast ekki við „Ekki gráta elskan mín, þó þig vanti vítamín…? eða hið þekkta sönglag þeirra „Einu sinni á ágústkveldi“. Vesturfaramiðstöð Austurlands er í Kaupvangi,en þúsundir Íslendinga fóru frá Vopnafirði vestur um haf í leit að betri lífskjörum í kringum aldamótin 1900. Þá er þar einnig að finna handverkshúsið og Kaupvangskaffi hvar sörverað er úrvals kaffi, tertur og léttir réttir. Við hlið Kaupvangs er dagvöruverslun sveitarfélagsins, Kauptún, lyfsala og útibú ÁTVR. Innar í kauptúninu er söluskáli N1, sem ber nafnið Ollasjoppa og þar á milli heilsugæsla.
Sundlaug sveitarfélagsins, Selárdagslaug, er að finna í Selárdal, á bökkum einnar mestu laxveiðiár Íslands. Vatnið í henni kemur úr heitri uppsprettu þar rétt hjá. Við sundlaugina er stór sólpallur, sólstólar og heitir pottar. Hestaleiga er staðsett í Syðri-Vík, handan fjarðar eða um 4-5 km. frá Kauptúninu en golfvöllur er rétt sunnan þéttbýlisins. Margar merktar gönguleiðar eru víðsvegar um Vopnafjörð á vit perla í náttúru Vopnafjarðar, má þar nefna Glúfursárfoss, Ljósastapa (fíllinn), um Fuglabjargarnes og Þverárgil svo eitthvað sé nefnt. Minjasafnið á Bustarfelli er í Hofsárdal, um 20 km. frá kauptúninu. Safn sem segir langa sögu búshátta og lætur engan ósnortinn. Við hlið safnsins stendur kaffihúsið Hjáleigan.
Hjólastólaaðgengi er óvíða betra en á Vopnafirði og eru heimamenn stoltir af því. Þó er rétt að vekja athygli á að það á ekki við um tjaldsvæðið m. t. t. snyrtingar þess. Í íþróttahúsi er aftur á móti gott aðgengi fyrir fatlaða að snyrtingum og sturtu.


Verð

Verð 2017

Verð fyrir fullorðna: 1.300 kr
Frítt fyrir börn undir 12 ára aldri
Börn , 12 – 16 ára: 700 kr
Eldri borgarar og öryrkjar: 1.000 kr
Verð á rafmagni: 1.000 kr sólarhringurinn

Þriðja nóttin er frí.